Eins og fram kom í máli Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins mun hann ekki sækjast eftir endurkjöri á landsfundi flokksins í lok mars.

Mikið er rætt um möguleg formannsefni flokksins en þeir aðilar sem helst hafa verið nefndir til sögunnar í formannsembættið eru Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján Þór Júlíusson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi varaformaður.

Minna hefur farið fyrir mögulegum varaformannsefnum en heimildir Viðskiptablaðsins herma að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Ólöf Nordal, alþingismaður, hafi töluvert verið nefndar.

Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að Þorgerður Katrín íhugi alla möguleika, það er að sækjast eftir formannsembættinu, sækjast eftir að sitja áfram sem varaformaður eða draga sig út úr forystu flokksins.

Þorgerður Katrín og Hanna Birna sækja að hluta til stuðning úr svipaðri átt innan flokksins og því verður að teljast ólíklegt að þær etji kappi við hvor aðra. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Hanna Birna telji ekki tímabært að sækjast eftir formannsembættinu en hún sé þó undir talsverðum þrýstingi að sækjast eftir varaformannsembættinu.

Þá hefur Ólöf Nordal verið nefnd til sögunnar eins og fyrr segir en Ólöf er búinn að sitja á Alþingi frá árinu 2007 sem þingmaður Norðausturkjördæmis og  þykir hafa stimplað sig vel inn meðal flokksmanna á þeim tíma.

Þá er að lokum uppi getgátur um að Guðlaugur Þór Þórðarson muni bíða með að sækjast eftir formannsembættinu en sækjast þess í stað eftir varaformannsembættinu.