Hannes Smárason, starfandi stjórnarformaður FL Group, hefur hagnast um rúmlega fimm milljarða króna á fjárfestingu sinni í félaginu en hann kom að félaginu sem kjölfestufjárfestir í lok janúar 2004. Hagnaður hans samanstendur af óinnleystum gengishagnaði og tveimur arðgreiðslum. Óinnleysti gengishagnaður er að upphæð 4.757 milljónum króna ef miðað er við lokagengi gærdagsins, sem var 14,7 krónur á hlut. Kaupgengi Oddaflugs, félag sem hann og Jón Helgi Guðmundsson stofnuðu um eignarhlutinn í Flugleiðum, keypti á genginu sjö og var heildarfjárfestingin í félaginu rúmir sex milljarðar króna en það var 38% eignarhlutur. Oddaflug seldi svo hluta af bréfum sínum og svo varð Hannes einn eigandi Oddaflugs og keypti helming bréfanna á genginu 9,6. Kaupverð þess hlutar var því um 3,6 milljarðar króna. Heildarkaupverð hluta sem nú eru í eigu Hannesar var 6.169 milljarðar króna en andvirði hlutarins er 10.926 milljónir króna. Oddaflug á nú hátt í 30% hlut í félaginu og hátt í 50% hækkun Flugleiða frá áramótum vegur þungt. Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag