HRC Ísland, rekstraraðili Hard Rock á Íslandi, tapaði 184 milljónum króna á síðasta ári. Tekjur félagsins lækkuðu úr 718 milljónum í 267 milljónir króna milli ára. Rekstrargjöld námu 444 milljónum, þar af 128 milljónir í laun og launatengd gjöld. Ársverkum fækkaði úr 39 í 15.

Eigið fé félagsins var neikvætt um 922 milljónir króna í árslok 2020. Skuldir námu 1,4 milljörðum króna, þar af voru 1,2 milljarðar skuldir við tengda aðila.

Hard Rock opnaði á Lækjargötu 2 árið 2016 eftir ellefu ára hlé á Íslandi. HRC Ísland hefur ekki enn skilað hagnaði en samanlagt tap félagsins á síðustu fimm árum nemur 1,1 milljarði króna.

Hard Rock á Íslandi er að mestu í eigu fjárfestisins Högna Péturs Sigurðssonar í gegnum HRC eignarhaldsfélag og félögin Nautica og Zukunft. Hann keypti HRC Ísland af Eyju fjárfestingarfélagi árið 2016.