Sá harði tónn sem fylgdi rökstuðningi Seðlabankans er hann tilkynnti um að halda stýrivöxtum óbreyttum virðist hafa haft smávægileg áhrif á hlutabréfamarkaðinn í gær og núna í morgun, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Ef stefna Seðlabankans verður áfram aðhaldssöm og stýrivextir verða óbreyttir (14%) langt fram á næsta ár mun það hafa neikvæð áhrif á hlutabréfaverð hér á landi. Annars vegar hefur hátt vaxtastig þau áhrif að það dregur úr fjárfestingum fyrirtækja og útlánum banka og fjármagnskostnaður eykst.

Hins vegar gerir hátt vaxtastig fjármögnun hlutabréfa dýrari og peningamarkaður sem ávöxtunarkostur verður erfiðari fyrir hlutabréfamarkaðinn að keppa við," segir greiningardeildin.

"Þrátt fyrir háa stýrivexti spáum við góðri ávöxtun á íslenskum hlutabréfamarkaði í ár, eða 20% á árinu, það samsvarar um 5% hækkun frá núverandi stöðu fram til áramóta. Ein skýring á þeirri góðu ávöxtun er sú að mörg íslensku fyrirtækjanna hafa stóran hluta af sinni starfsemi erlendis og eru því ekki eins háð íslensku efnahagslífi og ella væri," segir greiningardeildin.