Viðskiptaháskólinn á Bifröst býður fyrstur íslenskra skóla upp á nám í viðskiptafræði með áherslu á verslun og þjónustu. Námið hefst næsta haust. Um er að ræða fjarnám á háskólastigi sem veitir BS gráðu í viðskiptafræðum að loknu 4ra ára námi.

Nemendum gefst einnig kostur á að útskrifast með diplómagráðu í verslunarfræðum að loknu 2ja ára námi. Þar með bætist við nýr áfangi í menntun verslunarfólks. Stutt er síðan komið var á fót verslunarfagnámi fyrir almenna starfsmenn og diplómanám í verslunarstjórnun.

Háskólanámið fer þannig fram að á hverri önn eru kenndar þrjár námsgreinar og þar af er a.m.k. ein sem er sérstaklega sniðin að verslun og þjónustu. Námsgreinarnar eru kenndar í lotum þannig að lokið er við kennslu sérhverrar námsgreinar áður en tekið er til við þá næstu.

Samhliða sérhverri námsgrein er haldin vinnuhelgi sem stendur frá hádegi á föstudegi og lýkur síðdegis á laugardegi. Gist er á hótelum í grennd við Bifröst og er sá kostnaður, ásamt fæði á vinnuhelgum innifalinn í skólagjöldum. Námskrá fyrir viðskiptafræði með áherslu á verslun og þjónustu má nálgast með því að smella hér.

Rannsóknarsetur verslunarinnar við Viðskiptaháskólann á Bifröst verður faglegur bakhjarl námsins auk þess sem undirbúningur námsins var í höndum stjórnenda setursins. Sérstakur faghópur tók þátt í undirbúningi námsins og var hann skipaður fulltrúum verslunarfyrirtækja, aðilum frá SVÞ, VR- virðing, réttlæti og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, auk fulltrúum Viðskiptaháskólans á Bifröst.

Við undirbúning námsins voru tekin viðtöl við fjölmarga stjórnendur í verslunum auk þess sem sambærilegt nám var skoðað við erlenda viðskiptaháskóla. Kennsla verður einmitt að hluta til í höndum erlendra kennara auk kennara við Viðskiptaháskólann á Bifröst.