Í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu, FM 99,4 sem hefst klukkan 16, verður rætt um fyrirhugaða sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskólans en saman munu þeir mynda annan stærsta háskóla landsins með um 2500 nemendur. Stefnt er að því að starfsemin verði endanlega sameinuð á næsta sumri. Rætt verður við rektora skólanna um sameininguna skólanna - Þær Guðfinnu S. Bjarnadóttur, og Stefaníu Katrínu Karlsdóttur.

Í Viðskiptaþættinum í dag ætlum við að kynna okkur vistvæna ræstingarþjónustu, en það er nýtt fyrirtæki, Enjo fyrirtækjaþjónusta, sem bíður upp á hana, en vistvæn ræsting felur meðal annars í sér að klútum og moppum er aldrei dýft í óhreint vatn og við 95% af ræstingu er notast við óblandað vatn. Erlendur Pálsson, framkvæmdastjóri Enjo fyrirtækjaþjónustu ætlar að segja okkur frá þessu.

Í síðari hluta þáttarins ætlum við síðan að fjalla um fjárfestingu útlendinga í íslenskum sjávarútvegi og leiðir til að bæta rekstur fyrirtækja. Fyrst fáum við til okkar Finnboga Jónsson, starfandi stjórnarformann Samherja - en hann var einn frummælenda á fundi Verslunarráðs Íslands sem fór fram í morgun þar sem menn ræddu erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi, hvað mæli með þeim og hvað mæli þeim á móti. Menn vörpuðu upp þeirri spurningu hvort sjávarútvegurinn væri að missa af tækifærum en hvergi eru meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu innan OECD heldur en hér á landi.

Við sláum síðan botninn í þáttinn með því að kynna okkur ráðstefnu sem hefst á morgun en hún heitir Rekstur 2004 - og er ætluð fyrirtækjum og stjórnendum þeirra. Þarna ætla menn að ræða allt milli himins og jarðar sem tengist rekstri en leiðarstefið verður þó hvernig menn geti náð betri tökum á rekstrinum til að auka hagnað sinn.

Þátturinn er endurfluttur klukkan eitt í nótt.