Kostnaðaráælunin sem m.a. var unnin af norska verkfræðifyrirtækinu SWECO Grøner er raunhæf en jafnvel heldur í lægri kantinum, að mati sérfræðings sem kunnugur er verkinu og Viðskiptablaðið ræddi við.

Samkvæmt áætlun Norðmannanna mun spítalinn kosta 97 milljarða króna á verðlagi 1. maí 2008 eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í gær.

Áætlaður byggingarkostnaður á fermetra er 464.000 kr. og segir sérfræðingurinn það sambærilegt við álíka byggingar, en þó telji hann það heldur lágt.

Í kostnaðaráætluninni er tekið fram að útreikningarnir taki ekki til háskólabyggingar og mögulegrar verslunarmiðstöðvar sem fyrirhugð er að reisa samhliða spítalanum. Ekki er reiknað með breytingum á nærliggjandi byggingum, barnaspítalanum og geðspítalanum, sem einnig verður ráðist í.

Þá var áætlaður kostnaður borinn saman við byggingu Barnaspítalans og Háskólatorgsins og segir í matinu að samanburðurinn hafi leitt í ljós að gera megi ráð fyrir 15% skekkjumörkum í áætluninni.

Ingólfur Þórisson, sem stýrir undirbúningi framkvæmdanna, segir útdrátt sem birtur er á vefsíðu Háskólasjúkrahússins gefa rétta mynd af áætluðum kostnaði við bygginguna, en samkvæmt honum er kostnaðurinn 69 milljarðar. Ingólfur segir útdráttinn byggjast á nýrri kostnaðaráætlun, en sú áætlun er ekki birt á vefnum og því ekki hægt að bera hana saman við áætlunina frá janúar 2007. Hann segir jafnframt að Framkvæmdasýsla ríkisins hafi farið yfir áætlunina og samþykkt hana.

Fjármálaráðuneytið vísaði á heilbrigðisráðuneytið, en heilbrigðisráðherra var staddur erlendis í gær og var ekki til viðtals um málið.