Dregið var fram smurbrauð og tertur í mötuneyti starfsmanna Suðurverks nærri bökkum Markarfljóts í gær. Tilefnið var að Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, og hans menn tóku þá formlega við fjórum nýjum Komatsu námubílum frá Kraftvélum.

Komatsu trukkarnir vega hver um sig um 45 tonn og geta borið um 55 tonn á palli. Fulllestaðir vega þeir því um 100 tonn. Munu bílarnir kosta nálægt  450 milljónum króna og er þetta stærsta einstaka vinnuvélasala Kraftvéla frá upphafi.

Fyrir á Suðurverk myndarlegan flota námutrukka og margvíslegar annarra vinnuvéla sem flestar eru af gerðinni Caterpillar. Dofri segir það þó ekkert stílbrot að kaupa þessa Komatsu trukka. Þetta sé gott merki sem hann þekki ágætlega, sterkbyggð tæki og með góða þjónustu. Væntir hann því mikils af nýju trukkunum.