Veiðar á íslensku sumargotssíldinni hafa gengið ágætlega undanfarnar vikur. Uppsjávarfyrirtækin á Austurlandi hafa notið góðs af því að veiðin hefur undanfarið verið fyrir austan landið. Stór hluti aflans (ríflega 60%) hefur farið í frystingu eða söltun sem eykur aflaverðmætið til muna. Til samanburðar fór 47% í frystingu/söltun á vertíðinni í fyrra. Nokkur skipanna hafa fryst aflann beint um borð en önnur séð vinnslunni í landi fyrir hráefni með því sem næst daglegum löndunum undanfarnar vikur.

"Það sem af er fiskveiðiárinu (hófst 1. sept.) hafa veiðst 65 þús. tonn af íslensku síldinni. Heildarveiðin í október og nóvember í fyrra var tæp 90 þús. tonn. Úthlutaður kvóti á fiskveiðiárinu var óbreyttur frá síðasta fiskveiðiári, 110 þús. tonn. Miðað við veiðina undanfarið eru ágætar líkur á að úthlutaður kvóti náist," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.