Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 87,8% af því aflamarki sem úthlutað er og er það 1,2 prósentustigum hærri tala en í fyrra. Alls fá 372 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða um 26 aðilum færra en í fyrra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 9,5% af heildinni, næst kemur Samherji með 5,9% og þá Þorbjörn hf. með 5,5%. Þetta er sama röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fiskistofu.

Að þessu sinni er úthlutað 375.589 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 365.075 þorskígildistonn í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð. Aukning á milli ára samsvarar því um 10.500 þorskígildistonnum. Úthlutun í þorski er um 203 þúsund tonn og hækkar um tæp 9.000 tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn er 31.732 tonn og hækkar um 4.200 tonn og er sama aukning í ufsakvótanum. Tæplega 1.700 tonna samdráttur er úthlutun á gullkarfa og tæplega 1.100 tonna samdráttur í  djúpkarfa. Þá er úthlutun í íslenskri sumargotssíld 29.000 tonnum lægri en í fyrra. Úthlutað aflamark er alls 422.786 tonn sem er tæplega 6.600 tonnum minna en á fyrra ári.

Alls fá 489 skip úthlutað aflamarki að þessu sinni samanborið við 499 á fyrra fiskveiðiári. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Sólberg ÓF 1, en það fær 9.716 þorskígildistonn eða 2,6% af úthlutuðum þorskígildum.