Heildarvelta íslenska verðbréfamarkaðarins nam ríflega 3,8 milljörðum króna í dag. Þar af var velta á skuldabréfamarkaði um 2,3 milljarðar og á aðalmarkaði Kauphallarinnar 1,6 milljarðar.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,50% og stendur nú í 1.699,18 stigum og hefur þar með lækkað um 0,67% frá því að markaðir opnuðu aftur eftir áramót. Aðalvísitala skuldabréfa hefur aftur á móti hækkað lítillega og það um 0,07% frá 30 desember.

Úrvalsvísitölufélögin hafa flest lækkað á undanförnum dögum og var lítil breyting á því í dag. Reitir, Eik og Síminn hreyfðust ekkert og þá lækkaði Marel og Hagar einnig lítillega. Marel lækkaði um 0,20% í 191,9 milljón króna viðskiptum og Hagar um 0,39% í 244 milljón króna viðskiptum.

Icelandair Group virðist ætla að halda áfram að lækka og er gengi bréfanna komið niður í 22 krónur. Lækkun dagsins nam 1,57% og námu heildarviðskipti með bréfin 332,7 milljónum króna. N1 lækkaði einnig og það um 2,32% í tæplega 207 milljón króna veltu.

Af þeim félögum sem eru ekki í úrvalsvísitölunni, lækkaði Fjarskipti ehf. um 0,97%, VÍS um 0,76% og Reginn um 0,56%. Á sama tíma hækkaði Nýherji um 0,71% og HB Grandi um 3,85% og það í 152,8 milljón króna veltu.