HB Grandi selur eitt af nýrri skipum sínum, Engey RE, til Múrmansk og tekur Helgu Maríu aftur í notkun. Útgerðarfélagið HB Grandi hefur selt Engey RE 1 til Murmansk Trawl Fleet í Rússlandi og verður hún afhent nýjum eigendum fyrri hluta júní mánaðar.

Í tengslum við þessa sölu verður ísfisktogarinn Helga María AK 16, tekin aftur í rekstur, en henni var lagt í febrúar síðastliðnum. Fyrir mánuði síðan sögðu Fiskifréttir frá því að Helga María yrði leigð út til hafrannsóknarstofnunar Grænlands, og hefur Viðskiptablaðinu borist árétting á því á því að svo verði út samningstímann, til ágústloka, og ekki sé um stefnubreytingu að ræða.

Skipverjum í áhöfn Engeyjar verður boðið pláss á öðrum skipum félagsins. Engey er ferskfisktogari sem var smíðaður í Tyrklandi 2017 og hefur verið gerð út af HB Granda frá því skipið kom til landsins.

Engey RE er systurskip Akurey RE og Viðey RE, en kom fyrst af þessum þremur, en skipið er smíðað árið 2017. Hagnaður HB Granda á fyrsta ársfjórðungi nam rúmlega hálfum milljarði, en forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, oft kenndur við Brim, nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, sagði þá afkomu ekki viðunandi .

Var það þrátt fyrir fimmtungsaukningu hagnaðarins, en í kjölfarið hækkaði gengi félagsins um ríflega 4% í kjölfar afkomutilkynningarinnar.

Forstjórinn, Guðmundur Kristjánsson, keypti fyrir rúmu ári síðan þriðjungshlut í HB Granda af Kristjáni Loftssyni í Hval hf. og tengdum félögum fyrir 22 milljarða eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá . Fyrir um tveimur mánuðum fjallaði Viðskiptablaðið um virði HB Granda , sem virðist að mestu endurspegla virði aflaverðmæta félagsins frekar en sjóðstreymi.