Nýverið veitti Fjármálaeftirlitið rafeyrisfyrirtækinu Monerium leyfi til að gefa út rafeyri á bálkakeðjur og er fyrirtækið eina fyrirtækið í Evrópu sem hefur hlotið slíkt leyfi. Fyrirtækið opnaði rafræna bankareikninga þann 17. júní síðastliðinn og stefnir á að hefja útgáfu á rafeyri í ágúst.

„Monerium er rafeyrisfyrirtæki sem var stofnað árið 2016 en þá voru um það bil sjö ár síðan bálkakeðjutæknin (e. blockchain technology) kom fram á sjónarsviðið í formi Bitcoin,“ segir Gísli Kristjánsson, tæknistjóri og einn af stofnendum Monerium. „Það sem við höfum unnið að er að finna út hvernig nýta megi þessa tækni á fjármálamarkaði. Við höfum gefið út skýrslu sem nú er aðgengileg á heimasíðu okkar og fjallar hún um hvernig unnt sé að nýta þessa bálkakeðjutækni sem best í þessari fjártæknibyltingu sem nú gengur yfir.“ Hann bætir við að hann sjái fyrir sér að í framtíðinni muni rafeyrir vera algeng eign meðal almennings.

„Árið 2017 ákváðum við að verða fjármálastofnun sem myndi sinna þessu hlutverki. Við réðum lögfræðing strax til starfa, sem er ekki mjög hefðbundið að glænýtt nýsköpunarfyrirtæki geri, og hófumst handa við að undirbúa umsókn til Fjármálaeftirlitsins sem  var nýverið samþykkt. Þá var Monerium veitt starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki og varð jafnframt fyrsta rafeyrisfyrirtækið í Evrópu til að fá leyfi til að gefa út rafeyri á bálkakeðjur.“

Bálkakeðjutæknin dreifir valdinu

Gísli segir að bálkakeðjutæknin geri það mögulegt að koma rafeyri á stafrænt form sem ekki er hægt að fjölfalda.

„Það sem tölvur og stafrænt form hafa gert mögulegt er að það er tiltölulega auðvelt að fjölfalda gögn með einföldum hætti. En eins og gefur að skilja er það mikill ókostur fyrir verðmæti því ef einhver fengi að láni segjum bara 100 krónur og gæti síðan fjölfaldað þær að vild myndi það rýra verðmæti peningsins. Hingað til hefur þetta verið leyst með því að einhver milliliður, til dæmis bankastofnun, haldi utan um stöður reikninga og leggjum við því traust í hendur þeirra til að halda utan um hver á hvað, en með bálkakeðjutækninni þá er færsluskránni í raun dreift á alla þátttakendur í netinu.“

Hann bætir við að með þessari tækni þá hafi tekist að ná fram settu markmiði um að koma í veg fyrir fjölföldun án þess að þurfa að reiða sig á þriðja aðila.

Rafeyriseign verði almenn innan 10 ára

Spurður hvort hann telji að þegar fram líða stundir muni flestallir eiga rafeyri segist Gísli telja að svo verði. „Já tvímælalaust, ef við skoðum til dæmis hvernig tæknin hefur þróast og breytt daglegu lífi fólks á síðastliðnum 20 árum þá sjáum við miklar breytingar. Fyrir um tuttugu árum síðan notuðu hótelrekendur til dæmis faxtæki mikið í sínum rekstri en nú fara flestöll samskipti fram í gegnum netið og faxtæki því nánast orðin óþörf.“ Hann bætir við að hann telji að innan 10 ára munu flestir eiga einhvers konar rafrænar eignir.

„Þetta er klárlega framtíðin og ég tel að innan 10 ára munu mjög margir eiga ýmiss konar rafrænar eignir án þess kannski að jafnvel átta sig á því,“ segir hann að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .