*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Fólk 13. júní 2020 19:01

Hefur gaman af greiningu gagna

Anna Hrefna Ingimundardóttir var nýverið ráðin sem forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Magdalena A. Torfadóttir
Anna Hrefna Ingimundardóttir er með meistaragráðu í hagfræði frá New York University og hefur starfað lengi við greiningar.
Eyþór Árnason

Það leggst mjög vel í mig að taka við starfi forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, ég hef ekki starfað hjá samtökunum áður en hef þó starfað við greiningar,“ segir Anna Hrefna og bætir við að það séu þó mjög krefjandi tímar framundan. „Auðvitað eru mjög krefjandi tímar framundan í íslensku efnahagslífi en þá er þeim mun mikilvægara að taka þátt í uppbyggilegri stefnumótun.“

Anna Hrefna er menntaður hagfræðingur en hún er með BA gráðu í hagfræði frá New York University og meistaragráðu frá sama skóla. Hún segir að hún hafi ákveðið að mennta sig í fræðunum eftir að hafa tekið valáfanga í menntaskóla. „Ég ætlaði alltaf í læknisfræði en síðan á síðasta árinu mínu í Menntaskólanum í Reykjavík þá tók ég valáfanga í hagfræði sem vildi svo skemmtilega til að tvær frænkur mínar kenndu. Það var í raun þá sem hjá mér kviknaði brennandi áhugi á faginu og ég ákvað að skrá mig í hagfræði í Háskóla Íslands. Ég var í HÍ í eitt ár áður en ég flutti mig yfir til New York University.“

Anna Hrefna hefur lengi starfað við greiningar á efnahagslífinu en hún segir að áhuginn fyrir greiningum á efnahagsmálum hafi kviknað þegar hún starfaði hjá greiningardeild Arion banka. „Ég fann mig mjög vel í starfinu hjá greiningardeildinni og það sem mér þykir svo áhugavert við hagfræðina var einmitt að greina gögn og skoða hvernig hagstærðir hreyfast saman og hvaða áhrif stefna yfirvalda hefur á atvinnulífið og hagkerfið. Ein af ástæðunum fyrir því að ég sóttist eftir starfi hjá Samtökum atvinnulífsins er að mér þykir mikilvægt að beita mér fyrir því að réttar ákvarðanir séu teknar.“

Anna Hrefna er gift Einari Sigurjóni Oddssyni en hann vinnur hjá Kóða. Þau eiga saman þrjár dætur. Spurð hvað hún hyggist gera í sumar segir hún að það hafi upphaflega verið planað að fara til Ítalíu með fjölskyldunni en í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins hafi þau plön ekki gengið eftir.

„Það stóð upphaflega til að fara til Ítalíu með fjölskyldunni en fyrst það mun ekki ganga eftir býst ég við að við gerum bara eins og flestir og ferðumst innanlands í sumar. Við höfum ekkert ákveðið hvert við munum ferðast en ég býst við að við munum bara elta veðrið og styðja innlenda ferðaþjónustu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér