Lars Lagerback, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, hefur ásamt Heimi Hallgrímssyni náð einstaklega góðum árangri með liðið. Ísland er í dauðafæri um að komast á EM 2016 í Frakklandi næsta sumar eftir að hafa verið hársbreidd frá heimsmeistaramótinu í Brasilíu.

Frá fyrsta degi hefur samband Lars við íslenska fjölmiðla verið afar gott og hefur mikil gagnkvæm virðing ríkt þar á milli. Það sama var ekki alltaf uppi á teningnum í Svíþjóð, þar sem hann var þjálfari í níu ár, og lenti Lars stundum í því að ákveðnir blaðamenn reyndu að grafa undan honum.

„Ákveðnir fjölmiðlar í Svíþjóð og einstaka blaðamenn þoldu mig ekki. Ef maður lendir í stríði við einhverja fjölmiðlamenn eða reynir að segja þeim að þeir hafi rangt fyrir sér eða að maður beri ekki virðingu fyrir þeim því þeir eru að skálda sögur og þess háttar, þá getur maður orðið óvinsæll. Ég hef lært að maður á aldrei að lenda upp á kant við blaðamann því þú færð aldrei að eiga síðasta orðið. En samband mitt við flesta fjölmiðla var gott og ég ber mikla virðingu fyrir þeirra starfi á meðan þeir búa ekki til sögur," segir Lars við Viðskiptablaðið.

,,Ég hef ekki upplifað þannig fjölmiðla á Íslandi og það hefur ríkt mikil gagnkvæm virðing á milli okkar. Enginn hefur reynt að skálda neitt og ég er mjög ánægður með samstarfið við íslenska fjölmiðla. Ég tel líka að þeir hafi meiri áhuga á því sem er að gerast inni á fótboltavellinum á meðan sumir sænskir fjölmiðlar voru sífellt að leita að einhverjum sköndulum,“ segir Lars og viðurkennir hann að gott gengi liðsins hjálpi auðvitað í þeim efnum.

„Starf þjálfarans verður auðvitað mun auðveldara þegar vel gengur. Það er erfiðara að gagnrýna þegar vel gengur, enda er aðalatriðið að ná góðum úrslitum. Ég verð líka að skilja það og sætta mig við það að ef ég stend mig ekki vel á ég skilið að fá gagnrýni. Það er hluti af starfinu og á að vera það.“

Ítarlegt viðtal við Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .