*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 9. janúar 2013 10:27

Heiðar Már: Hef ekkert selt í Vodafone

Heiðar Már ætlar ekki að seglja bréf sín í Vodafone. Eignarhluturinn minnkar tímabundið vegna tilfærslu á milli reikninga.

Ritstjórn
Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, er í gegnum fjárfestingafélag sitt Ursus þriðji stærsti hluthafinn í Vodafone.
Haraldur Guðjónsson

Fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson hefur ekki selt hluta af bréfum sínum í Vodafone. Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, í dag kemur fram að samkvæmt yfirliti frá Kauphöllinni um hluthafa sé eignahlutur Ursusar, fjárfestingafélags Heiðars Más, í Vodafone nú kominn niður í 2,3% og sé það áttundi stærsti hluthafi félagsins.

Ursus keypti 4,7% hlut í hlutafjárútboði Vodafone í aðdraganda skráningar í Kauphöll fyrir jól. Heiðar var við skráninguna þriðji hluthafi félagsins. Markaðsverðmæti hlutabréfanna nam 481 milljón króna.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Heiðar Már að hann hafi ekki selt nein bréf í félaginu. Hins vegar sé hann að færa bréfin á milli reikninga og við það minnki eignarhlutur hans um tíma. Á mót hækki eignarhlutur Íslandsbanka, sem er vörsluaðili bréfanna, á meðan tilfærslu stendur.

„Þetta mun síðan breytast fljótt aftur en þarna er um tæknilegt atriði að ræða,“ segir Heiðar Már í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef ekki selt eitt einasta bréf í félaginu og ætla mér ekki að gera það að óbreyttu.“

Gengi hlutabréfa Vodafone stóð í 31,5 krónu í hlutafjárútboðinu á sínum tíma. Frá þeim tíma og til 27. desember þegar áðurnefndar upplýsingar um hluthafa voru birtar stóð gengið í 32,2 til 32,7 krónum á hlut og jafngildir það 2,5% til 3,8% hækkun frá útboði.

 

Athugasemd: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar kom fram að Heiðar Már hefði selt bréf sín í Vodafone og var þar vísað í frétt Fréttablaðsins síðan í morgun. Það leiðréttist hér með.