Hollenski bankinn NIBC birti í morgun afkomutölur fyrir seinasta ár, þar sem fram kemur að hagnaður bankans á seinasta ári nam 235 milljónum evra eftir skatta, eða rúmlega 22,4 milljörðum króna. Nettóhagnaður minnkaði um 62%, eða í 91 milljón evra.

Ákvörðunin um að hætta við yfirtöku Kaupþings á NICB, sem hefði orðið stærsta yfirtaka íslensks fyrirtækis frá upphafi, helgast af slæmri stöðu fjármagnsmarkaða að því er segir í yfirlýsingum frá bönkunum. Í tilkynningu frá NIBC kemur fram að búið sé að draga til baka tilheyrandi umsóknargögn hjá fjármálayfirvöldum. „Hluthafar NIBC styðja ákvörðunina [um að hætta við yfirtökuna] og ítreka stuðning sinn við sjálfstæði bankans,” segir í yfirlýsingu frá bankanum. Munu stærstu hluthafar, undir forystu bandaríska fjárfestingarfyrirtækisins JC Flowers, leggja 300 milljónir evra, eða rúmlega 28 milljarða króna, til að styrkja stöðu bankans.

Í samkomulagi Kaupþings og NIBC um yfirtökuna í ágúst í fyrra voru undanskildar afskriftir hollenska bankans vegna undirmálslána. Lánasafn bankans lækkaði í heild úr 7,2 milljarði evra í ársbyrjun 2007 í 2,6 miljarða evra í árslok.