Hagnaður Sparisjóðs Vestmannaeyja fyrir skatta nam 391 milljónum króna en 320 milljónum króna að teknu tilliti til reiknaðra skatta. Heildarrekstrartekjur námu 1.323 milljónum króna og heildarrekstrargjöld námu 878,9 milljónum króna að meðtöldum afskriftum segir í fréttt félagsins.


Bókfært eigið fé Sparisjóðsins í árslok 2006 var 1.314,8 milljónir króna og hafði hækkað á árinu um 40,6%. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum var 11,6% en má lægst vera 8% af útreiknuðum áhættugrunni. Í árslok var niðurstaða efnahagsreiknings 10.144,8 milljónum króna og hafði hækkað um 65,8% á árinu.

Innlán og verðbréfaútgáfa Sparisjóðsins námu í árslok 7.663,1 milljónum króna og hafði hækkað um 66,7% á árinu.

Heildarútlán að meðtöldum fullnustueignum námu í árslok 6.592,7 milljónum króna og höfðu hækkað um 60,3% á árinu.

Langstærstu útlánaflokkarnir voru, eins og áður til einstaklinga og íbúðalán eða rúmlega 76,0%. Hlutur sjávarútvegs í heildarútlánum var 9,2% í árslok. Hlutfall útlána til verslunar, þjónustu- og annarar atvinnustarfsemi var 13,5%. Lán til ríkis og bæjarfélaga voru 1,9%. Á árinu varð aðallega sú breyting að hlutfallslega hækka lán til einstaklinga og smærri atvinnustarfsemi mest og hlutfall yfirdráttalána eykst á ný eftir nokkurn samdrátt eftir tilkomu Íbúðalánanna.

Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis sameinaðist Sparisjóði Vestmannaeyja frá 1. júlí 2006. Samanburðartölur eru úr ársreikningi Sparisjóðs Vestmannaeyja fyrir árið 2005. Efnahagsreikningur stækkar um tæp 66% frá upphafi til loka ársins 2006, þar af er innri vöxtur Sparisjóðsins um 20%. Við sameininguna átti Sparisjóður Vestmannaeyja allt stofnfé Sparisjóðs Hornafjarðar.

Eftir samrunann er Sparisjóðurinn rekinn undir þremur bankanúmerum og eru afgreiðslustaðir sex. Undir útibúið á Höfn í Hornafirði heyra afgreiðslurnar á Djúpavogi og Breiðdalsvík. Hveragerði heyrir undir útibúið á Selfossi en höfuðstöðvar Sparisjóðsins eru í Vestmannaeyjum. Hjá Sparisjóðnum eru stöðugildi við bankastörf 33 í árslok 2006 í öllum starfsstöðvum hans.

Sparisjóður Vestmannaeyja er alhliða fjármálafyrirtæki sem hefur á þessu ári starfað í 65 ár, en sjóðurinn var stofnaður í árslok 1942.