Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir árið 2009 var heildarverðmæti vöruútflutnings 20,6% minna á síðasta ári en á sama tíma árið áður á föstu gengi. Iðnaðarvörur voru 48,2% alls útflutnings og er þetta annað árið í röð, frá því að skráning á árlegum útflutningi hófst með reglubundnum hætti árið 1862, sem hlutdeild iðnaðarvara er hærri en sjávarafurða.

Verðmæti iðnaðarvara var 26,5% minna á árinu 2009 en árið áður og vó ál þyngst í útflutningnum. Sjávarafurðir voru 42,0% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 9,2% minna en á sama tíma árið áður. Stærsti liður útfluttra sjávarafurða var fryst fiskflök og dróst útflutningur þeirra saman frá árinu 2008. Sölur á skipum og flugvélum drógust saman á árinu.