Gengi hlutabréfa í bandaríska fjárfestingarfélaginu Berkshire Hathaway lækkaði um 4,7% á síðasta ári. Á sama tíma stóð S&P 500-hlutabréfavísitalan óbreytt. Annað eins hefur ekki sést nema einu sinni áður síðan árið 1990.

Eins og flestir vita er það öldungurinn síungi Warren Buffett sem hefur stýrt fjárfestingum Berkshire Hathaway í meira en öld. Fjárfestar hafa getað gengið að því næsta vísu að sjóðurinn skáki hlutabréfavísitölunni ár hvert.

Síðasta ár var hins vegar undantekning, samkvæmt umfjöllun Bloomberg-fréttastofunnar um málið.

Þótt tæplega 5% gengisfall hljómi ekki svo mikið þá er um geysilega háar fjárhæðir að ræða. Eitt hlutabréf í Berkshire Hathaway kostar tæpa 117.300 dali (já, rúma 117 þúsund dali). Það jafngildir um 14,3 milljónum íslenskra króna.

Að sama skapi nemur markaðsverðmæti félagsins 194 milljörðum dala. Þegar markaðsverðmætið lækkað um tæp 5% merkir það að 9 milljarðar dala gufi upp. Það jafngildir 1.100 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar nema forgangskröfur í þrotabú gamla Landsbankans, sem að mestu er það sem kallast Icesave-skuld, 1.300 milljarðar króna.

Barack Obama og Warren Buffett ræðast við í Hvíta húsinu.
Barack Obama og Warren Buffett ræðast við í Hvíta húsinu.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)