Vitur maður sagði eitt sinn: „Íslendingar skiptast í tvo hópa, þá sem hlakka til söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva og þá sem svo hírast með tilhlökkun sína bak við luktar dyr og þykkt tjald af afneitun.“ Þrátt fyrir að margir lýsi yfir óþoli sínu á keppninni tala áhorfstölur sínu máli og þjóðin safnast saman eina örlagaríka kvöldstund ár hvert og vonar að loksins sé komið að okkur – að við fáum loksins að leggja inn veglega summu í Gleðibankann og halda keppnina á Íslandi!

Þrátt fyrir 29 ára harmsögu án sigra er ljóst að íslenski Eurovision-aðdáandinn mun aldrei gefast upp. Við höldum áfram að trúa því að í ár sé árið og því er löngu orðið tímabært að spyrja spurningarinnar: Hvar eigum við að halda keppnina árið 2018? Ráðum við yfirhöfuð við það? Hvað munu herlegheitin kosta? (Allur er jú varinn góður).

Engar ítarlegar áætlanir til

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir í raun engar ítarlegar áætlanir fyrir hendi sem hægt væri að grípa til ef Ísland myndi loksins hreppa hnossið, hins vegar yrði byggt á ráðgjöf sérfræðinga EBU ef til kæmi. „Við höfum einbeitt okkur að því að standa vel að söngvakeppninni hér heima, skapa mikla stemningu í kringum hana og sömuleiðis um þátttöku okkar í aðalkeppninni. Hér er um að ræða vinsælasta sjónvarpsviðburð ársins þar sem þjóðin sameinast, ungir sem aldnir, framan við viðtækin. Hins vegar er alveg ljóst að ef það kæmi til þess að við myndum vinna aðalkeppnina þá þyrfti stórt og samstillt átak til að takast á við það verkefni. Það er nú reyndar þannig að EBU, samtök Evrópskra sjónvarpsstöðva sem er bakhjarl keppninnar, kemur alltaf inn um leið og aðstoðar þjóðirnar sem taka að sér að halda keppnina. Eurovision er einn stærsti sjónvarpsviðburður heims með fjölda þátttakenda, gesta og viðamikilli útsendingu og er alveg ljóst að RÚV myndi ekki ráða við það eitt og sér en með ráðgjöf og stuðningi í gegnum EBU yrðum við tiltölulega fljót að átta okkur á því hvernig stilla þyrfti þessu upp og hverjir ættu að koma að viðburðinum.“

Stuttu fyrir aðalkeppnina spyrja bjartsýnir Íslendingar sig gjarnan hvar eigi að halda keppnina að ári. Þarf að byggja nýtt hús, byggja yfir Laugardalsvöllinn eða notast við Kórinn í Kópavogi? Magnús Geir segir það aldrei hafa verið skoðað ítarlega þótt það sé samkvæmisleikur að sjá fyrir sér hvernig Íslendingar myndu snúa sér í því máli. „Það væri bara skemmtilegt og krefjandi verkefni sem þyrfti að skoða þegar að því kæmi, með sambærilegum hætti og aðrir hafa gert áður.“

Einblínum ekki sérstaklega á sigur

Ef litið er til þeirrar miklu vinnu og kostnaðar sem kæmi til með að fylgja Eurovision-keppninni þá er ekki úr vegi að spyrja hvort stjórnvöld vilji nokkuð að íslenska lagið fari með sigur af hólmi. Er ekki bara betra að lenda í öðru sæti?

Magnús Geir segir erfitt að svara þessari spurningu en bendir þó líka á að heilmikil verðmæti felist líka í því að halda slíka keppni. „Ég skal ekki segja og eflaust eru ólíkar skoðanir á því. Við viljum auðvitað standa okkur vel í því sem við gerum og við reynum að tryggja að þjóðin geti verið stolt af framlaginu og að okkar fólk standi sig sem allra allra best. Það er auðvitað markmiðið. Við erum hins vegar ekki að leggja allt undir til að vinna. Við erum í þessu til að vera með og vera þjóðinni til sóma. En ég er hins vegar sannfærður um að ef til þess kæmi að við myndum vinna keppnina þá myndum við leysa úr því. Það eru þjóðir af öllum stærð- um sem hafa tekið þetta að sér og ekki má heldur gleyma því að það felst margvíslegur ávinningur í því að halda keppnina, bæði í gegnum beinar tekjur og óbeinar. Það er enginn vafi á því að gríðarleg verðmæti liggja í beinni og óbeinni markaðssetningu og ímynd sem tengist því að halda keppnina.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.