Tryggvi Þorgeirsson læknir og annar stofnenda Sidekick Health smáforritsins, eða appsins, segir appið hafi verið í þróun í þrjú ár. Nú sé fyrsta varan tilbúin. Hún sé sniðin að fyrirtækjum. Sidekick Health snýst um að leikjavæða heilsueflingu.

„Þetta virkar þannig að fyrirtæki kaupa áskrift í ákveðinn tíma og borga 1.250 krónur fyrir hvern starfsmann á mánuði," segir Tryggvi.  „Í byrjun nóvember varð Reiknistofa bankanna fyrsti viðskiptavinur okkar en þar starfa 180 manns.

Þetta hefur gengið framar vonum. Það hefur gripið um sig heilsuæði í fyrirtækinu. Fólk er að gera æfingar úti um alla skrifstofu og ávaxta- og grænmetisneyslan í mötuneytinu hefur aldrei verið meiri. Ég var á fundi þarna um daginn. Þar sem ég sat í fundarherberginu, á bak við glervegg, sjá ég að fólkið sem gekk fram hjá var að gera framstig, sem er einföld æfing. Þetta fólk var bara á leiðinni að sækja sér kaffibolla en safna stigum í leiknum í leiðinni.  Það er nákvæmlega svona sem við óskuðum okkur að þetta myndi virka."

Á markað í Svíþjóð

Tryggvi segir að nú sé Festi, sem er með um 1.200 starfsmenn og rekur meðal annars Krónuna og Elko, að byrja að nota Sidekick Health appið. Auk þess að markaðssetja appið hérlendis horfir fyrirtækið út fyrir landsteinanna enda er appið bæði á ensku og sænsku.

„Okkar fyrstu markaðir eru Ísland og Svíþjóð. Við erum í samvinnu við mjög stóran dreifingaraðila í Svíþjóð sem heitir Avonova. Þetta er leiðandi fyrirtæki í fyrirtækjaheilsueflingu í Svíþjóð og þjónustar 9.000 sænsk fyrirtæki, sem hafa samtals 800.000 starfsmenn. Avanova er með flott framboð af skimunum og úttektum en hefur vantað virkt inngrip og þar kemur Sidekick Health til sögunnar. Avonova mun núna eftir áramót byrja að bjóða sínum viðskiptavinum upp á appið okkar. Við höfum verið að undirbúa þetta síðustu níu mánuði, meðal annars með því að þjálfa þeirra sölufólk og undirbúa markaðssetninguna í Svíþjóð."

Tryggvi segir að í þó appið sé í dag fyrst og fremst hugsað fyrir hópa innan fyrirtækja geti einstaklingar sótt það.

„Einstaklingar geta notað appið en upplifa aðeins hluta af virkninni. Við stefnum að vera tilbúnir með fullkomna útgáfu fyrir einstaklinga á fyrri hluta næsta árs."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .