Langstærsta frumkynning á ökutæki sem farið hefur fram á Íslandi verður í september næstkomandi, þegar sjötta kynslóð Volkswagen Golf verður kynnt blaðamönnum alls staðar að úr heiminum. Auk þess sem opinberar myndir af sjöttu kynslóð Volkswagen verða teknar í íslenskri náttúru munu um 1.400 blaðamenn sem koma víða að úr heiminum koma til landsins og birta frásagnir af bílnum og umhverfi reynsluakstursins í sínum miðlum.

Eftir því sem næst verður komist vera fluttir inn á annað hundrað bílar til landsins, bæði sjóleiðina og með flugi.

Kynningin stendur yfir í tvær vikur og ljóst þykir að Volkswagen hyggst tjalda öllu til að gera kynninguna sem glæsilegasta og eftirminnilegasta fyrri blaðamenn heimspressunnar. Golf er mikilvægasti bíll Volkswagen, en skömmu eftir kynninguna á Íslandi verður bíllinn frumsýndur á bílasýningunni í París.

Myndir af bílnum við Bláa Lónið eru komnar út og sýna þær að ekki verða dramatískar breytingar á ytra útliti hans, en breytingarnar eru meiri að innan. Volkswagen hefur lítið gefið upp um bílinn en ein af nýjungunum er sögð vera 1,6 lítra TSI-vél sem skilar hvorki meira né minna en 200 hestöflum.

Einnig er búist við að Volkswagen kynni nýja línu þriggja strokka véla í Golf, sem eru með 1,0 og 1,2 lítra slagrými og skila um 75 hestöflum.

Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag.