*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 19. október 2013 09:15

„Heimurinn bíður ekki eftir okkur“

Bjarki A. Brynjarsson tók við forstjórastarfi í Marorku úr hendi frumkvöðulsins Jóns Ágústs Þorsteinssonar fyrr á þessu ári.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Bjarki A. Brynjarsson verkfræðingur tók við sem forstjóri Marorku í byrjun þessa árs. Forstjóraskiptin hjá þessu fyrirtæki sem er leiðandi á sviði orkustjórnunar fyrir skip í heiminum mörkuðu ákveðin tímamót en Bjarki tók við keflinu af Jóni Ágústi Þorsteinssyni, frumkvöðli og stofnanda fyrirtækisins. Til að byrja með átti hlutverk Bjarka að vera tímabundið en í sumar var ákveðið að hann myndi stýra skútunni til frambúðar. Samskipti Bjarka og Jóns Ágústs ná þó lengra aftur í tímann. „Þau hófust fyrir nokkrum árum þegar ég var forseti tækniog verkfræðideildar í Háskólanum í Reykjavík og Jón var í stjórn skólans. Árið 2007 fer ég úr HR og í fjármálaráðgjöf en í gegnum hana hef ég unnið smáræði með Marorku. 

Árið 2012 var mjög erfitt í alþjóðlegum skiparekstri og allar fjárfestingar sem voru nauðsynlegar voru stoppaðar. Marorka tókst á við þetta með því að endurskipuleggja vöruframboðið og verðstrúktúr á meðan verið var að byggja grunninn að framtíðarvexti félagsins. Síðasta sumar óskaði Jón eftir því að ég hjálpaði honum við reksturinn og við að undirbúa fyrirtækið fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Það var kominn tími til að setja sig í stellingar til að sjá hvort það væri hægt að ná stóra tækifærinu,“ segir Bjarki en niðurstaða stefnumótunarvinnu innan Marorku var samþykkt af stjórn í september á síðasta ári og var niðurstaðan sú að taka föst skref áfram og opna starfsstöð í Singapúr og Evrópu auk þess sem þjónustumiðstöð mun líklega rísa í Shanghæ í Kína. Nú þegar starfrækir Marorka þjónustumiðstöð í Dubai.

„Þegar fyrirtæki er komið með stóra viðskiptavini út um allan heim þá er nauðsynlegt að innviðir fyrirtækisins fylgi eftir. Það er eiginlega ekki hægt að vera lítill og þjónusta stórfyrirtæki. Okkar viðskiptavinir eru í Evrópu, Asíu og Miðausturlöndum að stórum hluta. Við þurfum að byggja upp og komast nálægt okkar viðskiptavinum. Um áramótin síðustu tók Jón þá ákvörðun að taka við stjórnarformennskunni af Þórði Magnússyni og að stíga til hliðar sem forstjóri þannig að honum gæfist meira tækifæri til að vinna að stefnumótun félagsins,“ segir Bjarki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Marorka
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is