Helga Lára Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin safnastjóri RÚV. Verður hún því yfirmaður safnadeildar en hlutverk hennar er að safna, varðveita og miðla dagskrárefni Ríkisútvarpsins og styðja við starfsemina með fjölbreyttum safnkosti og skjalastjórnun.

Helga Lára hefur gegnt stöðu deildarstjóra safnadeildar Listasafns Reykjavíkur frá árinu 2008, en hún hefur unnið hjá safninu síðan 2002. Samhlíða því hefur hún haldið fyrirlestra og kynningar á starfi safnadeildar Listasafnsins við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands.

Jafnframt var hún stundakennari í safnfræði við Félagsvísindadeildar HÍ árin 2007-2009. Þar áður vann hún á Minjasafni Reykjavíkur og Samtímasafninu í Helsinki, Kiasma. Helga er stofnfélagi og núverandi formaður Félags íslenskra safnafræðinga og situr í stjórn Íslandsdeildar ICOM-International Council of Museums sem starfar undir UNESCO.

Helga Lára er með masterspróf í alþjóðlegri safnafræði frá Gautaborgarháskóla og B.A. próf í heimspeki og diplóma í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands.