Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður Pírata, segist í viðtali við Viðskiptablaðið munu greiða atkvæði með frumvarpi Vilhjálms Árnasonar um breytingar á lögum um verslun með áfengi. Frumvarpið miðar að því að heimila einkaaðilum smásölu áfengis.

„Ég er þeirrar skoðunar að almennt skiptir frelsi máli, og ekki bara þegar það veldur því að allir lifi lengur og heilbrigðara lífi, heldur að það skiptir máli í grunninn,“ segir Helgi. „Þegar ég fæ mér bjór þá veit ég alveg að ég er ekki að fara vel með líkamann minn. Ég kýs samt að drekka hann, og mér þykir mjög vænt um þetta frelsi, að geta valið sjálfur að stytta líf mitt aðeins og bara hafa svolítið gaman. Þetta finnst mér bara mikilvægt að fólk geti gert.

Það er hægt að gera þetta þannig að það komi mjög mikið niður á það sem kallað er lýðheilsu, sem mér finnst persónulega svolítið ógnvekjandi hugtak. Af hverju er það þannig að einkamálefni eru orðin almannamálefni þegar þau eru sett í tölfræði? Ég skil það ekki alveg. Það kemur mér ekkert við hvort þú kjósir að vera hraustur eða ekki, en þegar þú ert hluti af tölfræði þá allt í einu kemur það mér við. Mér finnst það svolítið skrýtið.“

Unglinganeyslan hefur minnkað

Helgi segist horfa mest á unglinganeyslu í þessu sambandi. „Hún skiptir mestu máli þegar kemur að vandamálum seinna meir í lífinu. Því eldri sem maður er þegar maður byrjar að drekka, því minni líkur á vandamálum og vandamálin eru minni. Nú höfum við aukið aðgengi að áfengi gríðarlega mikið, margfaldað það á síðustu 15 árum eða svo. Sjöfaldað áfengisbúðir, þær eru vinalegri, þær eru bókstaflega gegnsærri, þú sérð áfengið. Það er betri þjónusta, þær eru fleiri og þær eru víðar. Á sama tíma hefur unglinganeyslan dregist mikið saman, bæði á löglegum og ólöglegum vímuefnum.

Ástæðan fyrir minnkandi unglinganeyslu er væntanlega ekki vegna aukins aðgengis, en það er hins vegar vegna þess að samhliða því hafa verið til staðar verkefni sem snúast um forvarnir og rík og góð meðferðarúrræði, sem reyndar því miður eru ekki nógu góð fyrir börn í dag.

Ef ég væri að skrifa sjálfur frumvarp eða þingsályktunartillögu um að auka frelsi við sölu áfengis, þá myndi ég vilja gera þetta bæði í einu. Ég myndi vilja auka frelsið og samhliða vera með verkefni til þess að grípa það sem fer úrskeiðis. Það held ég að væri snyrtilegasta lausnin,“ segir Helgi.

Ítarlegt viðtal við Helga Hrafn er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .