Helgi Vilhjálmsson, oftast kenndur við Góu, hefur í fjölda ára gagnrýnt lífeyrissjóðakerfi Íslands og markmið þess í þágu þeirra sem eiga lífeyrissjóðina. Nú hefur hann hrundið af stað átaki og auglýsir eftir lífeyrissjóði sem hefur áhuga á að nýta sér heimild sem sett var í lög árið 2011 og fjárfesta í húsnæði sem hentar öldruðum.

„Það vantar talsvert upp á að aldraðir njóti húsnæðis sem uppfyllir þarfir þeirra hvað varðar einkalíf. Það hefur sýnt sig að fjárfestingar í fasteignum sem slíkum eru meðal öruggustu fjárfestinga sem völ er á. Sá lífeyrissjóður sem ræðst í slíkt verkefni ætti því að ná nokkrum markmiðum í einu; arðbærri fjárfestingu, uppfylla þörf hjá sjóðsfélögum og taka stórt skref í átt að betra lífi fyrir alla landsmenn,“ segir Helgi.

Helgi vill með átaki sýnu hvetja landsmenn til þátttöku með því að skrá nafn sitt á vefnum okkarsjodir.is . Hann segir mikilvægt að lífeyrissjóðirnir sjái að húsnæði fyrir aldraða og það sé eitthvað sem sjóðsfélagar vilji. Í janúar mun Helgi svo upplýsa um fjölda undirskrifta og ræða við þá lífeyrissjóði sem vilja taka þátt í átakinu.