Tæpur helmingur heimila landsins áttu erfitt með að láta enda ná saman í fyrra og tæp 36% heimila gátu ekki mætt óvæntum útgjöldum upp á 157 þúsund krónur með þeim leiðum sem þau nýta venjulega til að standa undir útgjöldum, samkvæmt Lífskjarakönnun Hagstofunnar . Í könnuninni kemur m.a. fram að rúm 27% heimila landsins töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og tæp 14% heimila töldu greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána þunga. Þá höfðu 10,1% heimila hér á landi hefur lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu á síðastliðnum tólf mánuðum. Á sama tíma hafa 10,4% heimila lent í vanskilum með önnur lán.

Fram kemur í könnuninni að einstæðir foreldrar eru líklegri en aðrir til að vera í fjárhagsvanda og konur sem búa einar lenda síður í vanskilum með lán en karlar sem búa einir. Heimili þar sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga var 30–39 ár voru í mestum erfiðleikum. Því hærri sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga er á heimilinu því minni líkur eru á því að heimilið eigi í fjárhagserfiðleikum.