Helmingur félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins. Tryggingafélagið VÍS lækkaði um 1,6% í dag, mest allra félaga. Hlutabréfaverð VÍS stendur nú í 18,6 krónum á hlut og hefur nú nú fallið um 3,6% frá því að það náði sínu hæstu hæðum á þriðjudaginn í 19,3 krónum.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka, eða nærri hálfur milljarður króna en gengi bankans lækkaði um 0,2% í dag. Hlutabréf Arion hafa engu að síður hækkað um 86% í ár, mest allra félaga Kauphallarinnar.

Skeljungur hækkaði um 1,5% í dag, þó í aðeins 73 milljóna króna veltu. Félagið tilkynnti í dag um áform að stofna tvö ný dótturfélög til að „skerpa enn frekar á áherslum í rekstri“. Skeljungur hyggst boða hluthafafund þar sem lögð verður fram tillaga um breytingu á tilgangi félagsins í samþykktum „þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi“. Hlutabréfaverð Skeljungs hefur hækkað um 50% í ár og stendur nú í 13,4 krónum á hlut.

Meira var þó um að vera á skuldabréfamarkaði Kauphallarinnar en alls nam veltan þar 10,6 milljörðum króna, þar af 8,7 milljarða velta með ríkisskuldabréf. Mestu viðskiptin voru með ríkisskuldabréf í flokkinum RIKB 28 1115, óverðtryggð bréf með gjalddaga í lok 2028. Ávöxtunarkrafan í þeim flokki hækkaði um 11 punkta í dag og nemur nú 3,63%.