Af tíu viðskiptateymum sem tóku þátt í Startup Reykjavík á síðasta ári hafa fimm fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði. Samtals nema stirkvilyrði til fyrirtækjanna frá sjóðnum um 135 miljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka, en Startup Reykjavík er samstarfsverkefni bankans og Klaks-Innovits. Verkefnið felur í sér að bankinn fjárfestir í sprotahugmynd fyrir 2 milljónir króna, en alls eru tíu verkefni valin. Tilkynnt verður um hvaða verkefni verða valin í ár næsta þriðjudag.

Greint er frá fjármögnun fyrirtækjanna fimm í tilkynningu frá Arion banka í dag. Í henni segir að síðast hafi fyrirtækið Skyhook ehf. fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði. Um er að ræða verkefnastyrk vegna vörunnar mymxlog að upphæð 45 milljónir króna, eða 15 milljónir í þrjú ár. Hin fyrirtækin sem um ræðir eru WhenGone, Designing reality, Eskitech og Cloud engineering. Til viðbótar hafði fyrirtækið Guitarparty fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði en það var valið til þátttöku í Startup Reykjavík 2012.