Hlutabréfagengi hjá tíu af tuttugu félögum á aðalmarkaði Kauphallarinnar stóð í methæðum við lokun markaða í dag. Þrettán félög á aðalmarkaðnum hækkuðu um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins. Alls nam velta á hlutabréfamarkaðnum 3,8 milljörðum króna.

Fasteignafélögin leiddu hækkanir annan daginn í röð. Eik og Reginn hækkuðu bæði um nærri fimm prósent í dag og Reitir um 3,8%. Hlutabréfagengi Eikar stendur nú í 12,8 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í maí 2017 þegar það náði hæst 12,81 krónu. Gengi Regins hefur aldrei verið hærra en það stóð í 30,2 krónum við lokun markaða í dag. Fasteignafélögin þrjú hafa alls hækkað um 75%-90% í ár.

Útgerðarfélögin Síldarvinnslan og Brim náðu bæði nýjum hæðum í dag. Síldarvinnslan hækkaði um 4% í dag og hefur nú hækkað um 30% á þremur vikum. Hlutabréfaverð félagsins er nú 48% hærra en í almennu útboði þess í maí síðastliðnum. Útboðsgengi Brims endaði daginn í 74,5 krónum á hlut og hefur nú hækkað um 35% á síðustu þremur vikum.

Hlutabréfaverð bankanna þriggja hefur hefur aldrei verið hærra. Gengi Kviku hækkaði um 1,5% og stendur nú í 27,4 krónum á hlut. Gengi Kviku hefur nærri fjórfaldast frá því í mars á síðasta ári. Gengi Íslandsbanka náði 125,4 krónum á hlut eftir 0,2% hækkun og gengi Arion stóð óbreytt í 192 krónum.

Hlutabréfagengi tryggingarfélaganna VÍS og Sjóvár hefur sömuleiðis aldrei verið hærra eftir meira en 1,5% hækkun í dag. VÍS hefur hækkað um 83% í ár og Sjóvá um 96%. Auk framangreindra félaga þá náðu Eimskip og Skeljungur einnig nýjum hæðum.

Þrjú félög á aðalmarkaðnum lækkuðu í viðskiptum dagsins. Origo lækkaði um 1,6% í 78 milljóna viðskiptum. Iceland Seafood og Marel lækkuðu bæði um 0,6%.