Aðalmeðferð í máli Ólafs Ólafssonar fjárfestis á hendur ríkissaksóknara og íslenska ríkinu, þar sem hann leitast við að fá fellda úr gildi synjun endurupptökunefndar á beiðni hans um endurupptöku í svonefndu Al Thani-máli, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, fimmtudaginn 30. nóvember. Málið er það fyrsta sinnar tegundar, því úrskurðir endurupptökunefndar um að synja endurupptöku hafa ekki áður komið til kasta dómstóla segir í tilkynningu frá Ólafi.

Þrátt fyrir að í lögum um endurupptökunefnd segi að ákvarðanir hennar um að synja endurupptöku séu endanlegar og þeim verði ekki skotið til dómstóla, þá hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur undir lok janúar á þessu ári kröfu ríkisins um að máli Ólafs yrði vísað frá. Fallist var á þau rök að endurupptökunefnd sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd og heyri þar af leiðandi undir framkvæmdavaldið. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði með dómi í mars.

Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi í gær staðfestu þrjú vitni að þau hefðu á sínum tíma ekki rætt við Ólaf Ólafsson um ákveðin atvik í málinu. Um er að ræða lykilatriði í sakfellingu Ólafs að því er kemur fram í tilkynningunni. Ólafur telur að að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið röng vegna þessa atriða og á því byggði krafan um endurupptöku málsins.

Vitnin eru Bjarnfreður Ólafsson lögmaður sérhæfður í skattarétti, Eggert J. Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, sérfræðingur í verðbréfamarkaðsrétti. Lykilgagn í málarekstrinum á hendur Ólafi var hljóðritað símtal Bjarnfreðs Ólafssonar og Eggerts J. Hilmarssonar. Þegar vísað var í símtalinu til „Óla“ var ekki átt við Ólaf Ólafsson heldur Ólaf Arinbjörn, að því er fram kom í vitnisburði Bjarnfreðs fyrir héraðsdómi.

Þá byggir mál Ólafs á hendur ríkinu einnig á því að Kristbjörg Stephensen hafi verið vanhæf til að sitja í endurupptökunefndinni þegar fjallað var um mál hans, sökum náins vinskapar við eiginkonu þáverandi forseta Hæstaréttar, Markúsar Sigurbjörnssonar, sem sat í Al Thani-dómnum. Fyrir vikið hafi Ólafur haft réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni hennar í efa segir í tilkynningunni.

Dómari í máli Ólafs Ólafssonar á hendur ríkissaksóknara og íslenska ríkinu er Ásmundur Helgason.