Hlutabréfaverð Herbalife hefur hækkað mjög það sem af er viðskiptadegi í Bandaríkjunum eftir að fyrirtækið upplýsti að það væri í viðræðum við neytendastofnun Bandaríkjanna um sátt vegna rannsóknar á markaðsmálum fyrirtækisins. Herbalife hafði hækkað um 23,7% það sem af er degi þegar þetta er skrifað.

Neytenda- og samkeppnisstofnun Bandaríkjanna, FTC, hefur óskað eftir upplýsingum frá Herbalife varðandi markaðssetningu fyrirtækisins og sölutækni, sem gengur út á að selja söluaðilum viðskiptatækifæri. Í ársreikningi Herbalife sem birtist eftir lokun markaða í gær kom fram að ekki væri ljóst hvernig rannsóknin myndi enda, en að fyrirtækið væri að vinna með yfirvöldum að sátt í málinu.

Herbalife selur vörur sínar í gegnum sölufulltrúa. Til þess að gerast sölufulltrúi þarf maður að tilnefndur af einstaklingi sem er nú þegar sölufulltrúi. Samkvæmt upplýsingum af vefsíðu Herbalife, sem vísað er í í frétt USA Today , ákveða flestir að gerast sölufulltrúar til að njóta afslátta af vörum fyrirtækisins. Aðrir gerast sölufulltrúar til að tilnefna nýja fulltrúa og fá við það þóknanir eða bónusgreiðslur.

Herbalife segir þó á vefsíðu sinni að það krefjist mikillar vinnu og að það sé engin stutt leið til frama.