Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að bann Seðlabanka Íslands við söfnun erlends sparnaðar sé ekki liður í því að herða gjaldeyrishöft. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Forsaga málsins er sú að Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahagsráðherra, taldi fjármálaráðherra hafa átt þátt í að breyta reglum um gjaldeyrismál sem tóku gildi 19. júní sl. og sagði jafnframt að með breytingunni væru stjórnvöld á leið til strangari gjaldeyrishafta.

Bjarni segir það ekki hafa verið sína ákvörðun að breyta lögunum heldur sé það hlutverk SÍ að hafa eftirlit með gjaldeyrishöftum. Hann segir að með breytingunni sé Seðlabankinn einungis að gæta jafnræðis við framkvæmd laganna. Hann bætir við að ekki sé rétt að stjórnvöld séu á leið í átt að frekari gjaldeyrishöftum, heldur sé unnið að því að afnema þau í samstarfi við erlenda ráðgjafa.