Hermann Jónasson, sem á undanförnum árum hefur verið framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Landsbankans, hefur keypt hlut í fjarskiptafyrirtækinu HIVE og tekið til starfa sem forstjóri félagsins. Hermann verður annar tveggja eigenda HIVE ásamt Jóhanni Óla Guðmundssyni sem áður átti félagið að fullu.

HIVE er þriðja stærsta fjarskiptafyrirtækið á íslenskum markaði. Félagið hefur frá upphafi verið leiðandi í háhraða internetþjónustu og margsinnis rutt nýjungum braut á sviði verðlagningar og þjónustu, m.a. með ótakmörkuðu niðurhali og margvíslegum verðlækkunum á símaþjónustu.

HIVE hefur í dag um 20% markaðshlutdeild á sviði internetsþjónustu og vaxandi hlutdeild í annarri fjarskiptaþjónustu. Sérstök áhersla verður lögð á frekari landvinninga í internetsþjónustu ásamt því sem félagið hyggur á öfluga sókn inn á farsímamarkaðinn síðar á árinu. Þá er þátttaka í samkeppni um dreifingu sjónvarpsefnis jafnframt fyrirhuguð.

Hermann Jónasson, forstjóri HIVE: „Fjarskiptaþjónusta hefur aukist gífurlega að umfangi á undanförnum árum og sú þróun mun vafalaust halda áfram bæði til lengri og skemmri tíma. HIVE hefur nú þegar afar sterka stöðu á sviði gagnaflutninga og á þeim styrkleika verður byggt jafnframt því sem blásið verður til kröftugrar sóknar á öðrum sviðum fjarskiptaþjónustunnar. Ég hlakka til að takast á við það verkefni ásamt núverandi starfsfólki HIVE og þeim sem ganga munu til liðs við félagið á næstunni.“

Jóhann Óli Guðmundsson: „Það er mikill fengur að því að fá Hermann til félagsins. Ég er sannfærður um að með honum kemur dýrmæt þekking og kraftur sem mun nýtast vel í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er. Við munum hér eftir sem hingað til láta duglega í okkur heyra í þeirri hörðu samkeppni sem við heyjum við risana tvo á íslenska markaðnum, bæði með nýjum tæknilausnum og verðtilboðum.“