Nafni Eimskipafélags Íslands verður breytt í A1988 hf. ef tillaga stjórnar félagsins nær fram að ganga en stjórn Eimskipafélagsins hefur boðað til hluthafafundar sem haldinn verður eftir viku.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar eru tillögur stjórnarinnar lagðar fram. Þar er lagt til að hluthafafundurinn samþykki að breyta nafni félagsins í A1988 hf.

Þá er einni lagt til að hluthafafundur staðfesti heimild til stjórnar félagsins um að framselja alla eigur þess til Eimskip Ísland ehf. og hækka þannig hlutafé þess félags og fá sem gagngjald hluti í Eimskip Ísland ehf. Eins og áður hefur verið greint frá er gert ráð fyrir því að Eimskip Ísland verði í raun hið nýja Eimskip og gamla félagið leyst upp.

Þá biður stjórnin jafnframt um heimild til að framselja framangreinda hluti í Eimskip Ísland ehf., ásamt öllum öðrum eignum félagsins að frátöldum 51% hlut í Eimskip Tango ehf., til félagsins L1003 ehf. gegn afhendingu hluta í L1003 ehf.

Fram kemur í tilkynningunni til Kauphallarinnar að framangreind tillaga er gerð sem liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í framhaldi af samþykkt nauðasamnings félagsins sem staðfestur var þann 28. ágúst 2009 af Héraðsdómi Reykjavíkur. Í samningum sem gerðir voru í tengslum við nauðasamningsfrumvarp félagsins var gert ráð fyrir að skiparekstur félagsins yrði færður til nýs félags, L1003 ehf. (sem síðar mun fá nafnið Eimskipafélag Íslands ehf.).

Samkvæmt nauðasamningi félagsins munu kröfuhafar þess fá hluti í L1003 ehf. sem greiðslu á kröfum sínum á hendur félaginu.

Sjá nánar í tengdum fréttum hér að neðan.