Þótt það sé auðvitað aldrei ánægulegt þegar lánhæfiseinkunn íslensku viðskiptabankanna er lækkuð, líkt og matsfyrirtækið Moody’s gerði í síðustu viku, verða menn þó að horfa heildstætt á málin og þá líka á jákvæðu hliðarnar eins og þá að Moody’s metur horfurnar hjá íslensku bönkunum sem stöðugar. Það er hreint ekki svo lítils virði á tímum sem þessum sem einkennast af óvissu og óstöðugleika. Þetta segir Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann minnir jafnframt á að A-lánshæfsieinkunn, eins og íslensku bankarnir hafi hjá Moody’s, sé í öllum skilningi góð einkunn sem feli í sér að áhætta bankanna sé talin lítil. „Það mætti kannski líkja þessu við nemenda sem haft hefur níu í einkunn en fær nú kannski átta sem þrátt fyrir lækkun er mjög góð einkunn,“ segir Jónas.

Hann bendir sömuleiðis á að staðreyndin sé sú að bæði Kaupþing og Landsbankinn séu nú í reynd með sömu lánhæfiseinkunn og þeir voru með fyrir breytingarnar sem gerðar voru á aðferðafræði Moody’s við mat á lánshæfiseinkunnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .