Þrjátíu og þremur styrkjum upp á samtals 304 milljónir króna var úthlutað til doktorsnema og vísindamanna í Hátíðasal Háskóla Íslands í dag. Styrkirnir verða nýttir til rannsókna á fjölbreyttum fræðasviðum. Fimm doktorsnemar hlutu styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og 26 styrkhafar úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Sautján styrkhafanna úr Rannsóknasjóði eru doktorsnemar við Háskóla Íslands og níu eru vísindamenn sem nýta munu styrkina til að ráða til sín doktorsnema, að því er fram kemur í tilkynningu. Þá var veittur styrkur úr dánarbúi Ásrúnar Einarsdóttur til rannsókna á hvítblæði og styrkur frá Isavia til rannsóknar sem tengist flugstarfsemi. Af styrkþegunum 33 koma sjö erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Fram kemur í tilkynningu frá Háskólanum að styrkirnir renna til rannsóknarverkefna í læknisfræði, félagsfræði, matvæla- og næringarfræði, hagfræði, sagnfræði, íslensku, sálfræði, uppeldis- og menntunarfræði, lyfjafræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, jarðfræði, bókmenntafræði, eðlisfræði, efnafræði, umhverfis- og byggingarverkfræði,  tölvunarfræði og líffræði svo eitthvað sé nefnt.

Alls bárust 157 umsóknir um doktorsstyrki úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Þetta var sjöunda skiptið sem úthlutað var úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands en sjóðurinn er í umsjá Landsbankans.