Fjarskiptafélagið Hibernia hefur lokið við nýjan fjármögnunarsamning. Um er að ræða lán upp á 12 milljónir Bandaríkjadala og er það veitt til fimm ára. Að sögn Bjarna K. Þorvarðarsonar, forstjóra Hibernia, verður lánið notað til frekari uppbyggingar Hibernia.

,,Lánið gerir okkur kleift að vaxa frá 28 milljóna dala veltu upp í 48 milljónir dala á árinu 2009, auk þess að byggja nýjan sæstreng og net á Írlandi sem eitt og sér er um 40 milljóna dala verkefni á þessu ári." Þess má geta að móðurfélag Hibernia er á Íslandi og heitir Hibernia Group ehf. Þetta félag á síðan félög í öllum þeim löndum sem Hibernia starfar, sem aðallega er Bretland, Írland, Kanada og Bandaríkin.

Hibernia á og rekur 25.000 kílómetra af ljósleiðaraneti á milli þessara landa (og einnig annarra Evrópulanda). Hjá Hibernia starfa um 60 manns í dag og fyrirtækið er með um 180 viðskiptavin, þar á meðal stærstu símafyrirtæki heims eins og France Telecom, Deutsche Telecom, AT&T, TeliaSonera, þjónustufyrirtæki á borð við Level3, Yahoo og Microsoft og stór fjármálafyrirtæki, Citigroup, NYSE, MorganStanley o.s.frv.