Í maí á síðasta ári tók auglýsingastofan Skapalón til starfa. Fyrirtækið sérhæfir sig í gerð vefja og auglýsingaborða en að baki þess eru þrír eigendur, þeir Jonathan Gerlach, Arnar Ólafsson og Örn Ó. Guðjónsson sem allir eru grafískir hönnuðir. Frá tilurð félagsins hefur verið unnið að fjölda vefsíðna og segja þeir félagar að sífellt fleiri fyrirtæki séu að átta sig á mikilvægi þess að vera með frambærilega vefsíðu fyrir vörur sínar og þjónustu.

Í samstarfi við erlenda aðila

Síðustu misserin hafa Skapalónsmenn sinnt fjölsóttustu fréttamiðlum landsins. Á síðasta ári störfuðu þeir með Morgunblaðinu að breytingum á mbl.is. Þaðan lá leiðin til 365 þar sem vísir.is var tekinn í gegn. Þessa dagana vinnur Skapalón síðan að nýju útliti fyrir vef Ríkisútvarpsins. Von er á nýrri heimasíðu RÚV á næstunni. Skapalónsmenn segja að fyrirtækin sem þeir starfa fyrir séu flest íslensk en verkbeiðnir utan landsteinanna hafi þó aukist að undanförnu. Þannig var Skapalón valið til að hanna nýjan vef tónlistarhússins í Árósum. Fyrirtækið er einnig í samstarfi við hollensk-íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Five Degrees sem vinnur að hugbúnaðarlausnum fyrir banka og fjármálastofnanir.

Hinir eiginlegu hönnuðir Icesave

Þeir Jonathan og Örn störfuðu áður á vefdeild Landsbanka Íslands. Það var fyrir hrun bankans og þótt þeir verði seint sakaðir um tilurð Icesave-reikninganna í Hollandi og Bretlandi þá eru þeir óumdeilanlega tveir af hinum eiginlegu hönnuðum Icesave. Þeir hönnuðu nefnilega allt útlit og viðmót vefsíðunnar, sem hinir umdeildu netbankareikningar byggðu á. Líklegast er rétt að gera hér greinarmun á hönnuðum og höfundum Icesave. Jonathan og Örn neita því alfarið að taka ábyrgð á Icesave-klúðrinu og neita því einnig staðfastlega að eiga heiðurinn af hinu litskrúðuga kennimerki Icesave. Það hafi verið teiknað erlendis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.