Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að sér detti ekki í hug annað en að hinn „þögli meirihluti sjálfstæðismanna“ muni standa vörð um sjálfstæði Íslendinga á komandi landsfundi flokksins, sem efnt verður til í lok janúar næstkomandi. Eitt helsta erindi landsfundarins á einmitt að vera það að leita svara við Evrópuspurningunni, en Samfylkingin, samstarfsflokkur sjálfstæðismanna í ríkisstjórn, er talin hafa gert stefnubreytingu í þeim efnum að skilyrði fyrir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Þessi skoðun Styrmis kom fram á fjölmennri fullveldishátíð Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, sem haldin var í Salnum í Kópavogi. Þar bar Styrmir Evrópuspurninguna saman við þær spurningar, sem helst hafi brunnið á mönnum í sjálfstæðisbaráttunni forðum.

Minnti hann á hvernig hefði farið fyrir Uppkastinu, drögum að að nýjum óuppsegjanlegum sambandslögum  Íslands og Danmerkur, árið 1908, en þá hafi það verið alþýða manna, sem hafi hafnað því gegn eindregnum ráðleggingum helstu embættismana landsins. Nú stæðu menn frammi fyrir svipaðri spurningu, þar sem sumir stjórnmálamenn, verkalýðsforingjar og fjölmiðlamenn virtust hafa gefist upp á sjálfstæðinu, en Styrmir kvaðst í engum vafa um vilja meirihuta þjóðarinnar, sem eiga myndi lokaorðið.

Styrmir rifjaði upp fleiri álitamál, sem á daga þjóðarinnar hefði drifið, þar sem í raun hafi ávallt verið að fjalla um sjálfstæði þjóðarinnar og yfirráð yfir auðlindum hennar. Sagðist hann ekki heldur vera í neinum vafa um að varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, myndi standa við orð sín á öðrum fundi í Kópavogi í maí síðastliðnum, en þar kvað hún Evrópusambandsaðild útilokaða fæli hún í sér framsal á auðlindum þjóðarinnar.

Meðal annarra ræðumanna á fundinum var Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs, og talaði hún enga tæpitungu heldur. Kvað hún öllum ljóst að ástæða væri til þess að hrófla við íslensku stjórnkerfi, auka lýðræðið og skerpa á ábyrgðinni á því. Taldi hún mikið óráð að aflétta ráðherraræðinu hér til þess eins að fela það framkvæmdastjórninni í Brussel, sem enga ábyrgð bæri gagnvart neinum.