Hinrik Örn Bjarnason, fyrrum framkvæmdastjóri Eimskips í Þýskalandi hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs N1.

Í tilkynningu kemur fram að Hinrik Örn útskrifaðist 1998 sem viðskiptafræðingur með Cand Oecon gráðu frá Háskóla Íslands. Að loknu námi starfaði hann í 5 ár sem sölustjóri hjá SÍF hf. og dótturfyrirtækjum, m.a. í 2 ár í Englandi.

Í upphafi árs 2003 tók Hinrik við starfi forstöðumanns útflutningssviðs Samskipa og sinnti því til 2007. 2007-2008 starfaði hann hjá Landsbankanum sem yfirmaður erlends sjávarútvegsteymis bankans en starfið fól m.a. í sér fjármögnun á alþjóðlegum sjávarútvegsfyrirtækjum. Frá 2009 og þar til nú í janúar starfaði Hinrik í Hamborg sem framkvæmdarstjóri Eimskips í Þýskalandi þar til hann hóf störf á N1 í janúar.

Hinrik er kvæntur Önnu J. Sævarsdóttir, iðnrekstrarfræðingi og eiga þau þrjár dætur saman.