Hlutabréf í Evrópu hækkuðu almennt í dag. Norræna vísitalan OMXN40 hækkaði um 1,2% og annars staðar í Evrópu lá hækkunin almennt á bilinu 0,5-1,2%. Meðal áhrifavalda má telja jákvæðar atvinnutölur frá Bandaríkjunum og fréttir af því að líklegt sé orðið að skoska bankanum RBS takist, ásamt tveimur öðrum bönkum, að eignast stærsta banka Hollands, ABN Amro. Hollenski bankinn er metinn á 101 milljarð dala, um 6.200 milljarða króna, í viðskiptunum. Kaupin verða stærstu bankakaup sögunnar gangi þau eftir, að því er fram kemur hjá WSJ.