Hlutabréf í Evrópu hafa hækkað það sem af er degi og eru það helst bankar og námufyrirtæki sem leiða hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þá hefur evrópski flugvéla- og vopnaframleiðslurisinn EADS, sem meðal annars á stóran hluta í Airbus verksmiðjunni, hækkað um 7% í morgun eftir að hafa kynnt jákvætt uppgjör fyrsta ársfjórðungs.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur hækkað um 0,6% í morgun en í Lundúnum stendur FTSE 100 vísitalan í stað. Í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,7%, í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,25% og í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 0,5% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 1,1%.