Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag, annan daginn í röð og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki auk olíufyrirtækja sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

Hækkanir dagsins voru þó engan veginn í takt við gærdaginn en FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 2,8%. Um tíma hafði vísitalan hækkað um 6,5% innan dags en heldur dró úr þeirri hækkun seinni part dags.

Eins og fyrr segir áttu olíufélög nokkurn þátt í hækkunum dagsins. Þannig hækkuðu BP, Total og Shell á bilinu 6,6 – 7,3%.

Þá hækkaði Barclays bankinn um 14,3%, Deutsche Bank um 9,3% og Societe Generale um 8,2% svo dæmi séu tekin um hækkanir banka og fjármálafyrirtækja.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 3,2%, í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 2,7% en í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan hins vegar um 0,3% og var eina vísitalan fyrir utan þá íslensku sem lækkaði í dag.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 2,7% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 5,1%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 3,4%, í Osló hækkaði OBX vísitalan um 5,7% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2,3%.

Lítil hreyfing hlutabréfa vestanhafs

Nú hafa markaðir verið opnir í tæpar þrjár klukkustundir á Wall Street. Síðan þá hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 1,6% en Dow Jones og S&P 500 vísitölurnar hækkað um 0,5%.

Að sögn Reuters má rekja lækkun Nasdaq og litla hækkun hinna vísitalnanna til svartsýni á meðal fjárfesta á afkomutölur félaga á haustmánuðum.

Þannig hafa tölvu- og tæknifyrirtæki lækkað nokkuð í dag. Til að mynda hefur Intel lækkað um 5%, Microsoft um 5,2% og Apple um 5,6% svo dæmi séu tekin.