Ávöxtun hlutabréfa í janúar var mjög góð, en Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 9,9% í mánuðinum, segir greiningardeild Landsbankans.

?Sé hækkunin reiknuð á ársgrundvelli nemur hún 209% ávöxtun. Síðustu þrjú ár hefur ávöxtunin í janúar sýnt meiri ávöxtun á ársgrundvelli heldur en ávöxtun ársins hefur orðið. Í ljósi reynslunnar er því varla hægt að búast við svo miklum hækkunum út árið að meðaltali,? segir hún.

Greiningardeildin bendir á að síðast ár hlutabréfamarkaðurinn fór vel af stað eða, 13,3% hækkun í fyrsta mánuði. ?Hlutabréfamarkaðurinn hélt áfram að hækka fram til 15. febrúar en lækkaði hratt þegar neikvæðar skýrslur hófu að berast og krónan veiktist. Mest nam lækkunin 24% frá hæsta gildi, en þróunin snérist við og hækkun Úrvalsvísitölunnar varð 15,8% yfir allt árið í fyrra.

Til samanburðar má taka árið 2003 þegar vísitalan var óbreytt eftir janúar en hækkaði um 56% á árinu í heild. Af þessu má sjá að spávissa um árið í heild er lítil sem engin sé aðeins litið til fyrsta mánaðar,? segir greiningardeildin.

Greiningardeildin hefur spáð að Úrvalsvísitalan hækki um 20-25% á árinu og byggir spána á verðlagningu markaðarins og efnahagslegum aðstæðum í upphafi árs. ?Af því sem komið er þarf vísitalan að hækka um 9-13% á árinu til að spá okkar gangi eftir,? segir greiningardeildin.