Alþjóðlega matsfyrirtækið Moodys tilkynnti í dag að lánshæfismat KB banka hefði verið hækkað. Langtímaeinkunn bankans var hækkuð úr A2 í A1 og einkunn vegna víkjandi lána var hækkuð úr A3 í A2. Þá var einkunnin C+ vegna fjárhagslegs styrkleika staðfest sem og skammtímaeinkunnin P-1 sem er hæsta einkunn sem gefin er. Að sögn Moodys endurspeglar hækkun lánshæfismatsins leiðandi stöðu bankans á Íslandi og trausta eiginfjárstöðu.

Hækkun Moody's á lánhæfismati KB banka kemur í kjölfar kaupa á danska bankanum FIH. Hækkunlánshæfismats er í samræmi við væntingar Greiningardeildar en fjallað var um þetta í síðasta verðmati á KB banka. Hækkun á lánshæfismati lækkar fjármögnunarkostnað bankans en að einhverju leyti eru þau áhrif þegar komin fram vegna væntinga um hækkun lánshæfismatsins.

Gengi KB banka hækkaði um 6,1% í dag en þar af hækkaði það um 1,8% í kjölfar tilkynningarinnar sem var birt rétt fyrir lokun markaða.