Endurmat á farsímakerfi Vodafone upp á 5,4 milljarða króna sem gert var í upphafi árs 2008 var dregið að fullu til baka í lok sama árs.

Þetta kemur fram í ársreikningi Teymis, móðurfélags Vodafone, sem skilað var inn 20. október.

Endurmatið hækkaði bókfært eigið fé félagsins um 4,6 milljarða króna og gerði það að verkum að eiginfjárhlutfall félagsins um mitt ár í fyrra varð 17,6 prósent. Ef virði farsímakerfisins hefði ekki verið fært upp þá hefði eiginfjárhlutfallið verið 7,6 prósent.

Virði farsímakerfisins fyrir endurmat nam tæpum 2,1 milljörðum króna en rúmlega 7,4 milljörðum króna eftir það.

Kauphöll Íslands áminnti Teymi í júní vegna endurmatsins og vísaði málinu í kjölfarið til Fjármálaeftirlitsins (FME). FME staðfestir að því hafi borist ábending um hugsanlegt brot Teymis.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .