Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,5% í desember en án húsnæðis hækkaði hún um 1,7%. Þetta er meiri hækkun en spáð hafði verið, en bæði Greining Glitnis og IFS spáðu um 1,2% hækkun vísitölunnar.

Þessi hækkun þýðir að tólf mánaða verðbólga er komin í 18,1% og 20,7% án húsnæðis.

Mestri hækkun vísitölunnar að þessu sinni veldur verðhækkun á húsgögnum, heimilistækjum og slíku, sem hækkaði um 4,4% og lyfti vísitölunni um 0,31%. Efni til viðhalds húsnæðis hækkaði um 7,2% og olli 0,31% hækkun. Matur og drykkur hækkaði um 2,1% og olli 0,27% hækkun og áfengi hækkaði um 9,2%, að hluta til vegna hækkunar áfengisgjalds, og olli það 0,15% hækkun, að því er segir í frétt frá Hagstofunni.