Ró hefur færst yfir hlutabréfamarkaðinn í Kauphöllinni eftir stanslausa uppsveiflu frá því viðskipti hófust á nýju ári. Gengi hlutabréfa í fyrirtækjum hefur bæði hækkað og lækkað og Úrvalsvísitalan lækkað. Þá er veltan öllu minni en síðustu daga.

Gengi allra hlutabréfa á markaðnum hefur hækkað frá áramótum. Gengi nýliðinna Vodafone hefur hækkað um 1,2% en Haga mest, um 7,2%. Þá hefur gengi bréfa Össurar hækkað um tæp 3,9%, fasteignafélagsins Regins um rúm 4,5%, Marel um tæp 5%, Icelandair Group um 6,7% og Eimskips um rúm 6,7%.

Í dag hefur hins vegar gengi bréfa Eimskips lækkað um 1,8%, Marel lækkað um 1,0,1%, Regins-bréf hafa farið niður um 0,73% og Icelandair Group lækkað um 0,34%. Á sama tíma hefur gengi bréfa Össurar hækkað um 0,75%, Vodafone hefur hækkað um 0,3% og Haga um 0,2%.

Veltan á hlutabréfamarkaðnum nemur það sem af er degi tæpum 1,4 milljörðum króna. Viðskipti með bréf Icelandair Group nemur um þriðjungi af heildarveltunni eða sem nemur 503 milljónum króna. Þá er veltan með bréf Eimskips 312 milljónir króna og Haga 248,5 milljónir. Veltan nam tveimur til þremur milljörðum króna á dag eftir áramótin.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,6% eftir viðstöðulausa hækkun frá áramótum og stendur hún nú í 1.113 stigum. Hún endaði í fyrsta sinn í gær yfir 1.100 stigum.